Miðvikudagur 28. júní 2000

 

Kláraði að pakka niður. Hafði fengið skilaboð frá Baldri fyrr um daginn um að súla í tjaldinu okkar hafði brotnað. Jóhanna fékk það hlutverk að finna varasúlu í bílskúrnum sínum. Helgina áður hafði Ívar Örn farið til Kaupmannahafnar að heimsækja Baldur og hann tók tjaldið mitt með. Bjarni tjaldaði því svo á laugardeginum svo að við myndum fá gott tjaldstæði.

 

Fimmtudagur 29.júní 2000

 

Jóhanna og Siggi bróðir hennar sóttu mig um kl. 6.30. Jóhanna hafði ekki fundið neinar tjaldsúlur en kom þess í stað með ofurlímband. Þegar við komum í flugstöðina var þar hellingur af fólki. Hálftíma biðraðir við öll innritunarborð nema símainnritun og Saga Class.  Þar sem við höfðum verið svo seinar að kaupa flugfar þá höfðum við einmitt neyðst til að kaupa leiðina út á Business Class þannig að við gátum innritað okkur með hinu snobbliðinu og þurftum ekki að bíða í röð.  Í fríhöfninni verslaði ég filmur og rafhlöður í myndavélina.  Síðan fórum við í Saga Lánsið og fengum okkur morgunmat og bjór.  Tók mér líka Egils appelsín og kókómjólk í nesti.  Fórum út í risastóru Atlanta vélina um 8.30 og komum okkur þægilega fyrir á fyrsta farrými sem er á hæð 2 í þessari vél.  Fengum ágætismat – sem varð enn betri þegar við fréttum að liðið á neðri hæðinni hafði fengið samloku! Jóhanna svaf auðvitað mest alla leiðina en ég horfði með öðru auganu á “Anna and the King”. 

Eftir þó nokkra bið eftir farangrinum fórum við með lest til Hovedbanegarden og hittum þar Baldur og Bjarna.  Þeir voru rosalega ánægðir þegar ég sagði þeim að ég þyrfti að bíða þar eftir Katli bróður mínum til að láta hann hafa svefnpoka, bleiku gallabuxnadýnurnar og regnjakka. Keyptum okkur Tuborg bjór í plastflöskum og Baldur las Moggann sem ég kom með. Loksins kom Ketill ásamt Guðnýju vinkonu sinni og hirti dótið sitt.  Þá gátum við haldið af stað í lestina til Roskilde.  Þegar þangað var komið þurfti að ákveða hvort farið yrði á tónleikasvæðið með lest, strætó eða leigubíl.  Eftir mikla labbitúra og bið fórum við í strætó.  Þrömmuðum svo með allar okkar byrðar inn á tjaldstæðið. Þegar nokkrir metrar voru eftir komu tveir blindfullir danskir strákar og báru dótið mitt restina af leiðinni. Annar þeirra hét Flemming.  Þeir buðu okkur líka tjaldstæði og voru mjög almennilegir. Eftir að við fundum tjaldið okkar sáum við ekki meira af þeim.

Tjaldstæðið okkar samanstóð af nokkrum tjöldum sem tjaldað var í hring og tjalddúkur yfir þeim til að verjast rigningunni sem herjaði þarna af og til. Tjaldið mitt var ekki í hringnum heldur við göngustíginn.  Þetta var rétt hjá inngangi nr 9 og stutt labb þangað og á kamrana (ekki of stutt í kamrana sem betur fer).  Eftir að hafa opnað einn plastbjór var hafist handa við viðgerðir á tjaldinu. Súla hafði ekki brotnað í mínu glæsilega kúlutjaldi heldur hafði teygjubandið inn í annarri súlunni slitnað.  Jóhanna tók þá upp ofurlímbandið og teipaði öll samskeytin saman. Þannig stóð tjaldið allan tímann og þoldi meira að segja að einhver blindfull dökkhærð íslensk stelpa dytti á það á laugardagsnóttinni.   Nú þarna var klukkan að verða 20.30 og kominn tími til að skella sér á Nine Inch Nails á Orange sviðinu.  Hlustuðum aðeins á þá og löbbuðum síðan í Græna tjaldið (sem er hvítt) til að hlusta á Bush sem voru fínir. Síðan var röðin komin að Iron Maiden (yeah).  Inn í þetta bættust svo klósett og áfengiskaupaferðir en slíkt felur í sér langar gönguferðir og biðraðir. Við gáfumst upp á að kaupa alltaf bjór því að rauðvín í fernu var mun hagstæðara upp á biðraðir og alkóhólmagn að gera.  Svo löbbuðum við út um allt alla nóttina og sungum “fly on the wings of love..... fly baby fly......” við litlar undirtektir viðstaddra.

 

Föstudagur 30.júní 2000

 

Ekki laust við að nokkurrar þynnku gætti þennan morguninn....  Drifum okkur í 50 þúsund manna Roskilde þorpið með lestinni.  Borðuðum á mexíkönskum stað sem var gersamlega troðinn af fólki og spilaði hræðilega dinnertónlist (Magarena og Ricky Martin). Í Roskilde fórum við í dómkirkjuna sem er rosalega flott.  Fullt af dauðum kóngum þar inni.  Við vorum einu tónleikagestirnir sem voru þarna inni, sennilega ekki mikið af þeim sem heimsækir dómkirkjuna!  Svo löbbuðum við niður að höfn og skoðuðum báta en fórum ekki inn í víkingasafnið því eitthvað verðum við að eiga eftir þegar við förum næst.

Svo fórum við upp á göngugötuna og í súpermarkaðinn og svoleiðis. Keyptum meira rauðvín og kassa af plastbjór. Jóhanna keypti geislasverð.  Síðan roguðumst við með bjórinn í lestina og inn á tjaldstæðið.  Þar vorum við svo uppgefnar eftir burðinn að við gleymdum bjórkassanum fyrir utan tjaldið okkar og uppgötvuðum það ekki fyrr en 10 mínútnum seinna þegar einhver Dani sagði: “Hey Jens, se her!” og þá björguðum við kassanum inn í tjald.

Um sexleytið löbbuðum við aðeins fram hjá Orange sviðinu að hlusta á Ziggi Marley son reggíkóngsins. Svo fórum við í Græna tjaldið og hlustuðum á nokkur lög með kántrýkónginum Willie Nelson.  Svo kl.22.30 hófust Pearl Jam tónleikarnir en ég ætla ekki að lýsa í smáatriðum hvað gerðist þar (sjá texta úr fréttum annarsstaðar). Þegar Pearl Jam voru hættir að spila löbbuðum við eitthvað um og enduðum á Underworld tónleikunum. Þar týndum við Jóhanna hvor annarri enda má ekki líta af fólki því þá er það horfið.  Ég fór fljótlega heim í tjaldbúðirnar eftir þetta og hringdi í Ketil bróður sem var heill á húfi og í rosastuði.  Sátum í tjaldinu og djúsuðum aðeins.

 

Laugardagur 1.júlí 2000

 

Um morguninn var dreift fréttabréfi um slysið á Pearl Jam tónleikunu m. Maður varð nokkuð miður sín eftir að hafa lesið það.  Bjarni og Baldur fóru í Kaupmannahöfn til að sinna mikilvægum hlutum eins og sturtu og hreinu klósetti, fara á Subway og ekki síst að hlaða farsímana.  Við fundum okkur eitthvað til dundurs. Til dæmis að gá hvort við myndum hitta Maríu á brúnni kl.14.00. Hittum hana ekki.  Um 1700 kíktum við aðeins á finnsku hljómsveitina Gjallarhorn, löbbuðum frá hjá Youssou N’dour sem ég fíla nú ekki.  Þarna var líka gleðibandið Calexico, Moloko og Magga Stina.  Rollins band var þarna líka og Chumbawamba en Flaming Lips áttu kvöldið eftir að við fréttum að Oasis og Pet Shop Boys myndu ekki spila.  Flaming lips spiluðu í Græna tjaldinu og tóku meðal annars lagið “Somewhere over the rainbow” !!!

Hittum Maríu fyrir tilviljun – þvílík tilviljun!  Fengum okkur einhvern skrýtinn mat og settumst niður hjá tveimur norskum strákum. Var að spá í að reyna við annan þeirra (Einar) þangað til að ég komst að því að hann var fæddur 1982 !

Þetta kvöld fórum við svo í ógurlega gönguferð í hinn enda tjaldstæðisins til að gá hvort að við finndum einhvern gamlan vin hennar Jóhönnu. Hittum bara einhverja skrýtna Íslendinga og eyðilögðum næstum á okkur lappirnar af labbi.

 

Sunnudagur 2.júlí 2000

Vöknuðum við það að við vorum að grillast í tjaldinu en það var einmitt komin sól og klukkan bara 8.30.  Fórum í flottu stuttbuxnurnar okkar. Mínar unnu ljótustuttbuxna keppnina en mér finnst þær bara flottar! Þær eru síðan pabbi minn fór til Hawaii 1985 og ég var í þeim allan tímann í Asíu ferðinni minni 1997 !

Eftir að hafa fengið okkur morgunmat hjá Mama Mombasa settumst við niður. Jóhanna fór að bera á sig sólarvörn.  Danskar flugur voru mjög hrifnar af því og endaði með að við hlupum í burtu og skildum brúsann eftir.   Svo fórum við aftur í tjaldið og sátum úti með Íslendingunum og saungluðum með gítarspili strákanna.  Fór á Wannadies tónleikana. Þeir voru helvíti skemmtilegir, síðan kom Muse og svo Íslendingasamkoman Sigur Rós. Þar voru næstum bara Íslendingar.  Eftir tónleikana hitti ég loksins Ketil bróður.  Baldur og Bjarni stungu af til Köben enda vinnudagur daginn eftir. Þeir skildu eftir tjaldið sitt og buðu okkur að nota það.  Eftir að hafa farið í tjaldið í hlýrri föt og kíkt á Goran Bregovits hitti ég Ketil á hittustu staðnum og týndi Jóhönnu. Lánaði Katli föt af mér sem hann tók sig mjög vel út í. Við Ketill söfnuðum glösum og keyptum okkur slísí kebab fyrir peninginn enda flestar búllur farnar að pakka saman og loka.  Við systkinin löbbuðum út um allt og skoðuðum brennur en þar var fólk að kveikja í tjöldunum sínum og spila á ruslafötur.  Borðuðum líka kex.  Fór frekar snemma að sofa eða um eittleytið.  Það var verið að reykja svo mikið hass í tjaldinu við hliðina á að ég held að ég hafi fengið hausverk af óbeinum hassreykingum.

Jóhanna kom svo í leitirnar kl. 0400 um nóttina. Þá hafði hún svikið “ein skítug helgi” og farið í sturtu um nóttina.  Auk þess hafði hún týnt GSM símanum sínum. Þá keypti hún sér símakort og hringdi heim í mömmu til að biðja hana um að loka símanum. En mamma sniðuga hringdi bara í símann og þá var svarað í honum í “Tapað – Fundið” á tónleikasvæðinu og Jóhanna rölti þangað til að ná í símann.

 

Mánudagur 3.júlí 2000

Vaknaði og fór í svikarasturtu, skilaði bjórkassanum og keypti smörrebröd  og Mathilde kókómjólk í morgunmat.  Tókum saman dótið okkar, tók himininn af tjaldinu mínu og tjaldið þeirra Baldurs og Bjarna og héldum af stað til Köben. Við lögðum af stað frá tjaldinu kl.10:00, vorum komnar í lestarbiðröðina kl.10:10 og að teinunum kl. 10.45 sirka.  Held að við höfum verið komin í Köben rétt fyrir tólf og með strætó til Kristínar líffræðistelpu kl. 12.30. Þar fór  ég í sturtu og smá aloe vera meðferð við brenndu baki og síðan fórum við á Strikið.  Versluðum eitthvað smá. Vorum aðallega að leita að mannsæmandi stuttbuxum handa mér og þægilegum körfuboltaskóm handa Jóhönnu en fundum hvorugt.  Vorum orðnar rosalega þreyttar í löppunum :Þ

Borðuðum á Riz Raz grænmetisstað sem mamma Jóhönnu hafði mælt með.  Síðan fórum við í Tívolí.  Það var mjög gaman, fyndið hvað það var mikið af Íslendingum þar með Roskilde armböndin sín.  Þetta var nú eiginlega í fyrsta skiptið sem ég fer í alvöru rússíbana ef undanskilið er einhver smá ferð í Englandi þegar ég var 10 ára. Enda hef ég varla komið til Kaupmannahafnar áður nema í 4 tíma þegar ég fór síðast til Roskilde 1997.  Jóhanna var ofurhugi og fór í Gyllta turninn en það er nýtt og svakalegt tæki þarna.  Eftir Tívolí fórum við í heimsókn til Baldurs og Bjarna á kollegiið sem þeir búa á.  Svo fórm við heim til Kristínar og ég hélt að við myndum sofa á gólfinu en þá dró hún tvo hermannabedda með dýnum undan rúminu sínu og ég fékk meira að segja gestasæng!  Ekkert smá glæsilegar móttökur hjá Kristínu!

 

Þriðjudagur 4.júlí 2000

 Eftir að hafa sofið samfleytt í 10 tíma á gestarúmunum hennar Kristínar vöknuðum við loksins og fengum okkur morgunmat.  Síðan skruppum við í Kristaníu og skoðuðum hasspípur og nokkrar tegundir af jónum og einhverju fleiru sem ég veit ekki hvað heitir.  Síðan fengum við okkur pizzu, náðum í dótið okkar og fórum með strætó út á flugvöll.  Vélinni seinkaði en komst þó heim að lokum og við vorum greinilega það sakleysislegar að við vorum ekki einu sinni stoppaðar í tollinum (þeir sjá víst á manni ef maður er að smygla).  Siggi bróðir Jóhönnu sótti okkur og kom okkur heim í hús.

 

Þetta var mjög skemmtileg ferð þrátt fyrir að dauðsföllin á hátíðinni hefðu sett sitt mark á hana.  Ég er að spá í að fara aftur.....